Þetta er niðurstaða Hæstaréttar. Maðurinn, Jerzy Wlodzimierz Lubaszka, var ásamt félaga sínum ákærður fyrir að smygla 11,5 lítrum af amfetamínbasa til landsins árið 2017.
Dómur í málinu var upphaflega kveðinn í maí 2018 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Jerzy Arkadiusz Ambrozy, ferðafélagi Lubaszka, hlaut sex og hálfs árs dóm en Lubaszka var sýknaður.
Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Landsréttar þar sem Lubaszka var dæmdur í fimm ára fangelsi. Hæstiréttur ómerkti þann dóm og vísaði aftur til meðferðar hjá dómstólnum.
Bjarni G. Björgvinsson, verjandi Lubaszka, krafðist þess fyrir Landsrétti að Davíð Þór og Jóhannes vikju sæti þar sem þeir dæmdu hann á sínum tíma í fimm ára fangelsi. Landsréttur hafnaði því og Hæstiréttur sömuleiðis.
Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari skilaði þó sératkvæði. Var hann þeirrar skoðunar að sú staðreynd að Davíð Þór og Jóhannes hefðu áður sakfellt Lubaszka gæti orðið til þess að dómararnir myndu síður fallast á rök hans en ef nýir dómarar kæmu að málinu.