Í tilkynningunni, sem send var út á Facebook, segir að viðbragðsaðilar hafi frá því gosið hófst lagt sig alla fram um að koma í veg fyrir að slys verði á fólki sem heimsækir svæðið, ýmist með leiðbeiningum á staðnum eða með aðstoð frétta- og samfélagsmiðla. Þá hafi gönguleiðir verið stikaðar og þær lagfærðar, hættuleg svæði afmörkuð og grannt fylgst með hraunrennsli og gasmengun sem fólki gæti stafað hætta af.
„Eldgosasvæði er hættulegur staður að vera á og almenn skynsemi ætti því að segja fólki að nauðsynlegt er að gæta varúðar, hlusta á og fara eftir ráðleggingum viðbragðsaðila og vísindamanna. Sem betur fer hafa ekki orðið mjög alvarleg slys á fólki, þó að stundum hafi ekki mátt miklu muna.
Nú hefur borið hefur á því undanfarið að fólk gangi út á hraunið á gosstöðvunum. Ekki þarf að fjölyrða um hversu hættulegt athæfi þetta er. Algjörlega er óvíst hvort nýstorknað yfirborð hrauns haldi og undir því getur verið rauðglóandi kvika,“ segir í tilkynningunni.
Þá er því bætt við að með því að fara út á hraunið sé fólk að setja björgunaraðila í „algjörlega vonlausa stöðu,“ fari hlutirnir á versta veg.
„Maðurinn má sín lítils gagnvart náttúruöflunum sem þarna eru á ferðinni, ef eitthvað fer úrskeiðis. Á gossvæðinu er hættan raunveruleg og þarna er fólk statt í raunveruleikanum, en ekki fyrir framan tölvu þar sem hlutirnir ganga út á sýndarveruleika og hægt er að kaupa sér líf.“