Samt vitum við öll að það er allra hagur að við tökum gott frí.
Gott frí, góð hvíld frá vinnu, samvera með fjölskyldu og vinum og já, við mætum tvíefld og fersk til baka.
Á dögunum birti FastCompany nokkur ráð til hjálpa fólki að njóta þess að fara í frí og vera í fríi.
Hér eru nokkur þeirra.
1. Rýnt í verkefnalistann
Í stað þess að vera á síðustu stundu og með marga bolta á lofti þegar þú ert að fara í frí, tekur þú þér smá tíma í að rýna í verkefnalistann þinn með góðum fyrirvara fyrir fríið.
Veldu þér þrjú til fimm verkefni sem þú metur þannig að þau þurfi að klárast fyrir frí.
Vertu viss um að þessi forgangsröðun sé raunhæf og rétt.
Ekki ætla þér of mörg verkefni og ekki keppast við að klára margt, sem strangt til tekið má bíða þar til eftir frí.
Ef þér finnst erfitt að búa til þennan lista, er hægt að skrifa niður verkefnin og skrá fyrir aftan:
Verður að klárast
Væri frábært að klára
Með þessu ertu mögulega að auðvelda þér forgangsröðunina og hér er þá lykilatriðið að missa aldrei fókusinn á þau verkefni sem verða að klárast. Þau eru alltaf aðalatriðin.
2. Úthlutun verkefna eða samskipti við viðskiptavini
Eru einhver verkefni á þinni könnu sem æskilegt væri að úthluta áður en þú ferð í frí? Ef svo er, skrifaðu þessi verkefni niður og farðu yfir þau með góðum fyrirvara með samstarfsfólki.
Það sama á við um ráðstafanir vegna viðskiptavina.
Mögulega eru viðskiptavinir sem þurfa á þjónustu að halda frá þér á meðan þú ert í fríi. Þá er gott að upplýsa bæði viðskiptavininn og samstarfsfólk um hvað þarf að gera eða búast við á meðan að þú ert í fríi.
3. Gerðu snemma drög að „Out of office“ tölvupóstinum
Það er ágætt að ákveða það snemma hvernig þú ætlar að orða tölvupóstinn sem tilkynnir um að þú sért í fríi.
Á fólk að hafa samband við samstarfsfélaga á meðan þú ert í fríi? Eða bíða þar til þú kemur? Er einhver ákveðin stefna hjá vinnustaðnum um þessar tilkynningar? Kanntu alveg á þetta?
Þegar markmiðið er að vera ekki á síðustu stundu með margt fyrir frí, er þetta eitt af því sem er hægt að undirbúa snemma.
Oft nægir að vera með vinnuskjal á sameiginlegu drifi þannig að samstarfsfólk geti sótt sér upplýsingar ef eitthvað kemur upp, til dæmis tengt viðskiptavini, á meðan þú ert í fríi.
4. Hvað þýðir „Ef erindið er áríðandi“?
Þótt æskilegast sé að fara að fullu í sumarfrí og kúpla sig alveg frá vinnu, þurfa sumir að gefa færi á að hægt sé að ná í sig.
Til dæmis „ef erindið er áríðandi.“
En hvað þýðir þetta?
Mjög líklega skilgreina ekkert endilega allir það á sama hátt, hvað telst mjög áríðandi. Þess vegna getur verið gott að fara yfir það með samstarfsfólki hvað telst áríðandi.
Orða jafnvel tölvupóstinn þannig að fyrst sé haft samband við vinnustaðinn og vinnufélagana. Þeir síðan meti það hvort tilefni sé til að hafa samband við þig í fríi.
Eins getur verið mjög gott að ákveða fyrirfram dag til að hafa samband úr fríinu.
Samstarfsfólkið þitt getur þá skráð niður punkta til að fara yfir með þér og sömuleiðis ert þú ekki alltaf að fylgjast með tölvupóstum því að þú veist að á þessum degi verður farið yfir helstu mál og fréttir.
5. Bókaðu fund með sjálfum þér
Loks er gott að undirbúa endurkomuna í vinnuna eftir frí. Hér er mælt með því að bóka í dagatalið fund með sjálfum þér strax að morgni vinnudags.
Þannig getur þú gefið þér til dæmis klukkutíma í að fara yfir tölvupósta og helstu mál sem hafa komið upp, á meðan þú varst í fríi.
Gott er að festa þennan fund í dagatalið hjá þér, eins og þú myndir gera ef þú værir að bóka þig á fund með öðru fólki.