Þetta er í fyrsta skipti sem Kim tjáir sig opinberlega um stjórn Joe Biden frá því að hann tók við embætti Bandaríkjaforseta fyrr á árinu. Norður-Kórea hefur áður hunsað allar tilraunir nýju ríkisstjórnar Bandaríkjanna til að eiga í samskiptum.
Kim ávarpaði leiðtoga verkalýðsflokksins á miðstjórnarfundi hans í höfuðborginni Pyongyang. Þar sagði hann að Norður-Kórea yrði að „undirbúa sig sérstaklega undir átök til að verja heiður ríkisins og áherslur þess á áframhaldandi framþróun á eigin forsendum“. Mikilvægt væri að tryggja frið og öryggi í landinu.
Hann sagði að ríkið myndi bregðast hratt og örugglega við öllum aðstæðum sem kynnu að koma upp og einbeita sér að því að ná tökum á ástandinu á Kóreuskaganum.
Fyrr í vikunni viðurkenndi leiðtoginn það opinberlega að matarskortur væri yfirvofandi í landinu.
Samband Kim og Biden hefur verið stirt hingað til en Biden kallaði Kim til dæmis óþokka í aðdraganda kosninganna í Bandaríkjunum í fyrra. Þá sýndi Norður-Kórea styrk sinn með gríðarstórri hersýningu örfáum dögum fyrir innsetningu Biden í embætti.
Sjá einnig: Kim Jong Un segir Bandaríkin stærsta óvin ríkisins.
Biden kallaði Norður-Kóreu síðan „alvarlega ógn“ við alheimsöryggi, í apríl síðastliðnum sem vakti hörð viðbrögð frá ríkinu, sem sagði yfirlýsingar Biden gerðar til að viðhalda fjandsamlegri stefnu Bandaríkjamanna gagnvart Norður-Kóreu.