Vísir ræddi við Reykvíking nokkurn sem var staddur á Húsavík í fjölskyldufríi í gær. Sá var óvænt stoppaður af lögreglunni og spurður hvort hann væri bólusettur. Það var hann ekki og var honum því kippt upp í bíl og keyrður í íþróttahúsið í bænum.
Og fjórum mínútum síðar er hann kominn með fyrri sprautu af bóluefni Pfizer.
Samstarfsverkefni framlínufólks
Vísir náði ekki í lögregluna á Húsavík í dag en ræddi við Áslaugu Halldórsdóttur, yfirhjúkrunarfræðing á Húsavík. Hún segist ekki hafa vitað af því að lögreglan hafi farið á rúntinn til að koma út bóluefni í gær en trúir því þó vel upp á hana.
Bólusestningarverkefnið er jú samstarfsverkefni eins og hún bendir á:
„Hér hefur slökkviliðið, lögreglan, sjúkraflutningamenn og hjúkrunarfólk bara tekið höndum saman þegar það er svona stór hópur boðaður í bólusetningu,“ segir hún.
Sjá einnig: Svona raðast árgangarnir í bólusetningu næstu þrjár vikur.
Um sjö hundruð manns voru boðaðir í sprautu með efni Pfizer á Húsavík í gær. „Svo stóðu út af nokkuð margir skammtar eins og gengur og gerist. Fólk er náttúrulega bara boðað með SMS-i með litlum fyrirvara og það er allur gangur á því hvar fólk er og hvort það kemst,“ segir Áslaug.
Því hafi það verið látið berast um bæinn að hver sem er gæti mætt í íþróttahúsið og fengið bólusetningu, svo skammtarnir færu ekki til spillis. Fjöldi Húsvíkinga auglýsti þetta á Facebook-síðum sínum.
„Efnið er auðvitað viðkvæmt og lifir bara í ákveðið langan tíma eftir að búið er að blanda það,“ segir Áslaug. Spurð hvort Facebook-auglýsingar Húsvíkinga og rúntur lögreglunnar hafi skilað ætlunarverki sínu telur hún svo hafa verið. Vel tókst að koma aukaskömmtunum út en Áslaug er ekki alveg viss hvort fáeinir skammtar hafi verið eftir eftir gærdaginn.