Topplið Bodø/Glimt vann ótrúlegan 7-2 sigur á Íslendingaliði Strømsgodset. Þá var Emil Pálsson í byrjunarliði Sarpsborg 08 sem steinlá 4-1 gegn Molde.
Alfons var að venju í byrjunarliði Noregsmeistaranna og lagði upp þriðja mark liðsins þegar tæpur hálftími var liðinn. Staðan í hálfleik var hins vegar orðin 4-0.
Valdimar Þór Ingimundarson kom inn af bekk gestanna á 68. mínútu er staðan var enn 4-0 og Ari Leifsson kom inn á tíu mínútum síðar. Staðan þá reyndar orðin 5-0.
Gestirnir minnkuðu muninn í 5-1 áður en heimamenn skoruðu tvívegis á þremur mínútum undir lok leiks. Staðan því 7-1 þegar Gustav Valsvik minnkaði muninn í 7-2 er venjulegur leiktími rann út, reyndust það lokatölur leiksins.
Emil var á sínum stað í byrjunarliði Sarpsborg er liðið heimsótti Molde. Hann var tekinn af velli á 63. mínútu leiksins, staðan þá 2-0 Molde í vil en leiknum lauk með 4-1 sigri heimamanna.
Alfons og félagar tróna sem fyrr á toppnum. Nú með 19 stig, tveimur meira en Molde sem er í 2. sæti. Valdimar Þór og Ari eru í 8. sæti með sjö stig og Sarpsborg 08 er sæti neðar með sex stig.