Hvorki Alma né Þórólfur fá greidda yfirvinnu því þau eru bæði með fastlaunasamning. Í staðin hafa þau fengið greidda launaauka vegna mikils álags í starfi síðustu mánuði en í kvöldfréttum RÚV kom fram að þríeykið svokallaða hefði verið í að minnsta kosti 150 prósent vinnu frá því að faraldurinn hófst.
Alma fékk greiddan launaauka sem nam 10 prósentum af mánaðarlaunum hennar að meðaltali síðustu fimmtán mánuði. Það eru um 170 þúsund krónur á mánuði eða samtals 2.551.500 krónur.
Þórólfur fékk þá greiddan launaauka sem nam 12 prósentum af mánaðarlaunum hans að meðaltali síðustu fimmtán mánuði. Samtals fékk hann 2.839.902 krónur eða tæp 190 þúsund á mánuði.
1.400 klukkutímar yfir fasta yfirvinnu
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, og Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn fá hins vegar greidda yfirvinnu. Mánaðarlaun Víðis eru tæplega 830 þúsund krónur en Rögnvaldur er með tæplega 790 þúsund krónur á mánuði. Inni í þeirri tölu er föst yfirvinna.

Þeir hafa þó báðir unnið lang yfir fasta yfirvinnu sina á síðustu mánuðum eða samtals um fjórtán hundruð stundir. Það eru 175 átta stunda vinnudagar.
Á síðustu fimmtán mánuðum vann Víðir 1.340 yfirvinnutíma en Rögnvaldur 1.189.