Erlent

Ný ríkis­stjórn hefur verið mynduð í Ísrael

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Yair Lapid, leiðtogi Yesh Atid, mun leiða ríkisstjórn Ísraels ásamt Naftali Bennett, formanni Yamina flokksins. 
Yair Lapid, leiðtogi Yesh Atid, mun leiða ríkisstjórn Ísraels ásamt Naftali Bennett, formanni Yamina flokksins. 

Ný ríkisstjórn hefur verið mynduð í Ísrael og markar það endalok tveggja ára stjórnarkreppu. Það markar jafnframt endalok 12 ára valdatíðar Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.

Yair Lapid, leiðtogi miðjuflokksins Yesh Atid, tilkynnti fyrir stuttu að átta flokkar muni mynda saman stjórn. Stjórnarfyrirkomulaginu verður þannig háttað að flokkarnir munu skiptast á að stjórna embættum og mun Naftali Bennett, formaður Yamina flokksins, verða fyrsti forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar áður en Lapid tekur við embættinu seinna á kjörtímabilinu.

Áður en ríkisstjórnin tekur til starfa þarf ísraelska þingið að samþykkja hana með atkvæðagreiðslu.

Lapid segir í yfirlýsingu að hann hafi tilkynnt Reuven Rivlin, forseta Ísraels, um stjórnarmyndunina.

„Ég heiti því að þessi ríkisstjórn mun starfa í þágu ísraelskra borgara, þeirra sem kusu okkur og þeirra sem kusu okkur ekki.“

Hann hét því jafnframt að meirihlutinn muni bera virðingu fyrir stjórnarandstöðunni og gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að sameina alla hluta ísraelsks samfélags.

Lapid og Bennett munu fara fyrir ríkisstjórninni og mun Lapid taka við embætti forsætisráðherra þann 27. ágúst 2023. Rivlin forseti hefur boðað þingfund og mun þingið koma saman eins fljótt og auðið er til þess að greiða atkvæði um ríkisstjórnina.

Þeir flokkar sem eru í samsteypustjórninni eru eftirfarandi: Yesh Atid, Kahol Lavan, Israel Beiteinu, Labor, Yamina, New Hope, Meretz og Ra‘am.

Mistakist flokkunum að hljóta kjör þingsins til að starfa sem ríkisstjórn mun þurfa að boða til fimmtu þingkosninganna á tveimur árum.


Tengdar fréttir

Stjórnar­and­stöðu­leið­togar í kapp­hlaupi við tímann

Stjórnarandstöðuleiðtogar í Ísrael hafa nú aðeins fjóra klukkutíma til stefnu til þess að mynda nýja ríkisstjórn áður en fresturinn rennur út. Takist þeim að ná markmiðinu markar það endalok 12 ára valdatíðar Benjamíns Netanjahús, forsætisráðherra landsins.

Fátt sem kemur í veg fyrir nýtt stjórnar­sam­starf í Ísrael

Stjórnar­tíð Benja­míns Netanja­hús, for­sætis­ráð­herra Ísraels, virðist á enda komin en er­lendir miðlar greina nú frá því að leið­togi hægri þjóð­ernis­flokksins hafi gengið að til­lögum miðju­flokksins Yesh Atid um myndun nýrrar ríkis­stjórnar.

Gæti séð fyrir endann á stjórnar­tíð Netanja­hús

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, gæti þurft að víkja úr embætti takist leiðtoga miðjuflokksins Yesh Atid að mynda ríkisstjórn fyrir komandi miðvikudag. Netanjahú er nú sagður gera allt í sínu valdi til að koma í veg fyrir að andstæðingum hans taki ætlunarverkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×