Einn var handtekinn í Vesturbæ Reykjavíkur vegna líkamsárásar og heimilisofbeldis. Sá var vistaður í fangaklefa lögreglu í nótt. Þá var karlmaður, sem var í annarlegu ástandi sökum ölvunar í miðbænum, vistaður í fangaklefa þar sem ekki tókst að koma honum til síns heima og hann ekki í ástandi til að vera úti á meðal fólks.
Ellefu voru stöðvaðir við akstur, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þá var allur gangur á því hvort þessir ökumenn væru með ökuréttindi.
Afskipti voru höfð af aðila vegna þjófnaðar í verslun í Austurborginni og var það mál afgreitt á staðnum. Þá var maður handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna húsinnbrots í Breiðholti. Maðurinn var mjög ölvaður og bíður hans skýrslutaka þegar Bakkus sleppir takinu af honum.