Í morgun birtist listinn fyrir maímánuð í þætti PartyZone hér á Vísi og sem fyrr er af mörgu að taka.
„Í þessum þætti kynnum við og spilum sumarlegan og þéttan PartyZone lista fyrir maí. Við grömsum í plötukössum plötusnúðanna og grúskum í helstu veitum og miðlum. Allskonar eðalstöff og löðrandi sumar. Að þessu sinni börðust einn stærsti plötusnúður heims í dag, Honey Dijon, og nýtt remix á lagi GusGus um toppsætið. Einnig má finna frábær lög frá Chemical Brothers, Khruangbin, Booka Shade, Roisin Murphy og fleirum,“ segir Helgi Már Bjarnason, einn umsjónarmanna PartyZone.
Grímulausir stefna á dansgólfið
„Danssumarið 2021 verður eitthvað blast. Fólk er að losna úr margra mánaða dansspennitreyju og ólgar í að komast á grímulaust dansgólfið. Það þarf eiginlega að fara að plana eitthvað,“ segir Helgi.
PartyZone er frumfluttur á Vísi snemma á föstudögum og er síðan aðgengilegur á helstu hlaðvarpsveitum og á Mixcloud síðu þáttarins. Hér fyrir neðan má sjá topp 30 listann fyrir maí í heild sinni.
Tvær múmíur frá 1991
Múmíur þáttarins (klassískar dansperlur úr fortíðinni) eru tvær. Þær eiga það sameiginlegt að hafa setið í toppsætum PartyZone listans í þessari viku fyrir 30 árum síðan, það er laugardagskvöldið 25. maí 1991.
Topplagið var funheitt og glænýtt lag eingöngu til á 2-3 vínylplötum hjá plötusnúðum þáttarins. Það lag átti síðar eftir að verða einn stærsti dansslagari tíundaáratugarins og var vinsælasta lag sumarsins. Þátturinn bjó einn að þessu lagi í margar vikur og er lagið því einn af stóru PZ smellunum, Gypsy Woman með Crystal Waters.
Mikið af rave-lögum voru á listanum í maí 1991 enda rave-tímabilið að nálgast algert hámark og þátturinn á fullu að auglýsa mislöglegar rave-samkomur út um allan bæ. Eitt lag úr þeirri áttinni sat í þriðja sæti listans og varð síðan nokkuð stór danssmellur, Cubik 22 með Night in Motion.