Schlüter var formaður Íhaldsflokksins á árunum 1974 til 1993 og gegndi embætti forsætisráðherra Danmerkur á árunum 1982 til 1993. Hann varð fyrsti Íhaldsmaðurinn til að gegna forsætisráðherraembættinu í Danmörku.
Á heimasíðu Konservative segir að Schlüter hafi andast í gærmorgun, í faðmi fjölskyldu sinnar.
Søren Pape, núverandi formaður Íhaldsflokksins, segir að fjölskylda Schlüter hafi misst kæran fjölskyldumeðlim og Danmörk hafi sömuleiðis misst einn þýðingarmesta mann samtímans.
Schlüter gegndi þingmennsku á árunum 1964 til 1994, en að þingmannsferlinum loknum var hann kjörinn á Evrópuþingið þar sem hann átti sæti til 1999. Á fyrstu árum sínum sem Evrópuþingmaður gegndi Schlüter embætti varaforseta þingsins.