Í síðustu viku óskaði Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis eftir því að Alma Möller landlæknir veitti honum upplýsingar um hvernig staðið hafi verið að leiðbeiningum og upplýsingagjöf vegna bólusetningar, einkum með tilliti til þeirra sem telja ekki öruggt að þiggja tiltekið bóluefni af heilsufarslegum ástæðum.
Bréfið var sent til landlæknis í kjölfar þess að umboðsmanni bárust kvartanir og ábendingar sem lúta að þessu. Þá óskaði umboðsmaður eftir því að landlæknir varpaði ljósi á meðferð mála þegar fólk telur sig ranglega hafa fengið boð í slíka bólusetningu og hvaða upplýsingar viðkomandi fá í kjölfar þess.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir svaraði erindinu og benti umboðsmanni á að beina hluta fyrirspurnarinnar til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Spyr hvort fólk fari aftast í röðina
Fram kemur í nýju bréfi umboðsmanns til Þórólfs að í kjölfar svarsins hafi honum áfram borist kvartanir og ábendingar vegna framkvæmdar bólusetninga. Komu erindin meðal annars frá þeim sem tilheyra skilgreindum forgangshópum en hafa ákveðið að hafna boðun í bólusetningu vegna þeirrar tegundar bóluefnis sem viðkomandi stóð til boða.
„Af þessu tilefni er þess óskað að mér verði veittar upplýsingar um hvort þeir sem eru í áðurlýstri stöðu njóti áfram forgangs í bólusetningu samkvæmt fyrirmælum áðurgreindrar reglugerðar og hvernig meðferð mála þeirra er háttað, einkum með tilliti til þess hvort þeir eru boðaðir aftur i bólusetningu miðað við þann forgangshóp sem þeim var upphaflega raðað í eða hvort þeir þurfi að fara í svokallaða opna tíma,“ segir í bréfi umboðsmanns. Hann óskar eftir svari eigi síðar en 25. maí næstkomandi.