Lavrov snæðir kvöldverð í Hörpu áður en fundurinn hefst, en rússneski ráðherrann mætti á staðinn núna fyrir stuttri stundu. „Horfirðu björtum augum til fundarins?“ spurði fréttamaður Stöðvar 2 ráðherrann, sem svaraði um hæl: „Ég er bara að horfa á þig“ - á ensku: „I am looking forward at you.“
Þar lék Lavrov á fréttamann, sem orðrétt hafði spurt í sakleysi sínu: „Are you looking forward to the meeting?“
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra virtist ánægður með Lavrov þar sem þeir hittu fréttamenn áður en Lavrov gekk til kvöldverðar.
Fyrr í kvöld sagði Guðlaugur Þór að það yrði stórkostlegt ef fundurinn bæri árangur.
„En aðalatriðið, og ég lagði á það áherslu, er að menn hittist sérstaklega. Orð eru til alls fyrst. Almenna reglan er sú að þegar menn hittast augliti til auglitis þá hefur það góð áhrif.
Við vitum að það er af mörgu að taka og vitum að það er spenna á milli og það er gott að Reykjavík sé vettvangur til að þeir ræði saman,“ sagði Guðlaugur Þór í viðtali við Stöð 2, þar sem hann beið spenntur ásamt fjölda fólks í Hörpu eftir að Lavrov renndi í hlað.
Í dag hefur utanríkisráðherra átt tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum einstakra ríkja. Hann fundaði meðal annars með með Anne Linde utanríkisráðherra Svíþjóðar og Pekka Haavisto utanríkisráðherra Finnlands.
Haavisto segir í viðtali við Stöð 2 að fundir Norðurskautsráðsins mjög mikilvæga þar sem hefðbundnum átökum ríkja sé haldið utan við umræður um sjálfbæra þróun norðurskautsins.
Ísland lætur nú af formennsku í Norðurskautsráði. „Þetta voru mjög erfiðar aðstæður bæði þegar við tókum við og núna, en það er gaman að í raun allir segi að við getum verið mjög stolt af okkar framgöngu,“ sagði Guðlaugur um þau tímamót.