Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að ríkisstjórnin samþykkti fyrir helgi gerð fjögurra metra hárra varnargarða á gosstöðvunum. Hún samþykkti svo í morgun að þeir færu í átta metra hæð og var strax í dag byrjað að hækka garðana.

„Þetta kostar svona kannski tuttugu milljónir í heildina,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
„Eins og málið lítur út í dag þá virðist þessi framkvæmd vera út í hött. Það hraun sem er að renna þarna það ætlar ekkert að fara þá leið sem menn vilja að það fari,“ segir Páll Einarsson, sem á að baki hálfrar aldar vísindaferil og er prófessor emeritus við Háskóla Íslands.
Hann segir hraun almennt séð renna undan halla.

„Það er núna halli að þessum varnargörðum, sem komnir eru. Ef hraunið ætlar að fara þá leið, þá fer það þá leið. Það er engin leið að breyta því.
Þetta hraun sem fer þarna það er ekkert á leið niður í Meradali, hvað sem menn gera.“
-Er þetta þá peningasóun að þínu mati að reisa varnargarðana?
„Það er sóun á einhverju. Ég veit ekki hvað það er,“ svarar Páll.
Katrín segir gerð varnargarðanna samkvæmt ráðgjöf verkfræðinga.

„Þannig að við erum að fylgja þeirra ráðgjöf.
En það er líka auðvitað mikilvægt að átta sig á því hvernig svona garðar virka í raun. Það er auðvitað líka sjálfstætt markmið,“ segir forsætisráðherra.
Páll telur ólíklegt að hraunið komist langt.
„Þegar gos er kraftlítið og rennsli lítið þá ná hraunstraumar ekki mjög langt.“

Þarna sé nánast ekkert sem hraunið geti skemmt.
„Það allra versta sem gæti gerst er að það færi sundur Suðurstrandarvegur. Og vegur í gegnum svona hraun, það er mjög auðvelt og lítið verk bara að laga hann.
Þetta er kannski spurning um hvort það verður teppt umferð um Suðurstrandarveg í einhverjar vikur,“ segir Páll.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá eldgosið í beinni útsendingu Vísis: