Gestir sem ganga gönguleið A á enda geta fylgst með gosinu úr nokkru návígi. Nokkur taktur er kominn í gosið og brestur á með látum á um það bil sex mínútna fresti þegar kvikan sprautast upp úr gígnum.
Því fylgir nokkuð gjóskufall og er göngufólk hvatt til að setja hettuna yfir höfuðið, snúa baki í gosið og halda kyrru fyrir þær sekúndur sem fallið stendur yfir.

Á vef SafeTravel er gert ráð fyrir þriggja til fjögurra klukkustunda göngutíma frá upphafsstað við Suðurstrandarveg. Er þar miðað við meðalvant göngufólk. Göngustafir geti hjálpað enda þurfi að fara upp og niður ágætlega brattar brekkur.
Minnt er á að alla jafna eru ekki viðbragðsaðilar á svæðinu frá miðnætti og til hádegis. Því eru þeir ekki til staðar á þeim tíma til að mæla gasmengun eða ef óhapp verður.
Fleiri ráðleggingar má nálgast á SafeTravel.is.
Að neðan má fylgjast með gangi mála á gosstöðvunum í vefmyndavél Vísis.