Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, í samtali við fréttastofu. Ákæran er byggð á 211. grein hegningarlaga sem fjallar um manndráp. Kolbrún segist ekki geta tjáð sig frekar um málið að svo stöddu. RÚV greindi fyrst frá.
Armando var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði rétt fyrir miðnætti 13. febrúar síðastliðinn. Maður að nafni Angjelin Sterkaj hefur játað morðið við yfirheyrslu lögreglu en Armando var skotinn níu sinnum með 22. kalíbera skammbyssu sem búin var hljóðdeyfi.
Málið var sent til héraðssaksóknara þann 3. maí síðastliðinn og höfðu þá 14 manns stöðu sakbornings. Ekki er ljóst hvað héraðssaksóknari hyggst hafast að hvað tíu af þeim fjórtán varðar.
Fjallað var um málið í fréttaskýringaþættinum Kompás í síðustu viku. Þóranna Helga Gunnarsdóttir, ekkja Armando Beqirai, gagnrýndi þar lögreglu fyrir að hafa haft upplýsingar um að sá sem gengist hefur við morðinu hafi verið vopnaður skammbyssu þremur vikum áður og verið á Íslandi þrátt fyrir að vera eftirlýstur í heimalandinu.
Fljótlega eftir morðið bárust fréttir af því að það tengdist mögulega skipulagðri glæpastarfsemi sem leiddi til einnar umfangsmestu rannsóknar sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ráðist í.