Eins og Vísir greindi frá í gær hafa tvær konur tilkynnt Sölva til lögreglu vegna meints ofbeldis en Sölvi hafði áður tjáð sig um kjaftasögur þess efnis í hlaðvarpsþætti sínum.
„Það er ekki hægt að taka til varna á samfélagsmiðlum,“ sagði Saga í Bítinu í morgun. „Þú vinnur aldrei þá maskínu, það er ekki hægt.“
Saga sagði Sölva kominn inn á geðdeild.
„Hann er alveg búinn. Það er ekkert grín þegar kommentakerfið glóir... þegar skilaboðin dynja... Þetta bara tekur á.“
Sagðist Saga fegin því að Sölvi væri kominn inn á geðdeildina og sagðist vona að hann fengi hvíld. „Því þetta er hættulegur leikur,“ bætti hún við en vildi að öðru leyti ekki tjá sig frekar um málið.
Ólögráða stúlka kærð vegna einkaskilaboða
Saga sagði vald áhrifavalda mikið og þeir ættu mjög auðvelt með að taka einstaklinga „af lífi“. Hins vegar væru það ekki bara fullorðnir sem væru að lenda í mulningsvél samfélagsmiðla heldur líka börn.
Tók hún eitt mála sinna sem dæmi um hið skrýtna samband sem upp væri komið milli netsamskipta og dómstóla. Þannig væri hún lögmaður foreldra stúlku undir lögaldri, sem hefði kært strák fyrir kynferðisbrot.
Þegar stúlkan sá mynd af vinkonu sinni með stráknum sendi hún einkaskilaboð á vinkonuna, þar sem hún sagði strákinn hafa nauðgað sér og annarri stúlku.
Foreldrar stráksins, sem einnig er undir lögaldri, kærðu þá stúlkuna fyrir meiðyrði, kröfðust þess að ummælin yrðu dregin til baka og 1,5 milljón króna í bætur.
„Mynduð þið trúa því að þetta ætti sér stað á Íslandi?“ spurði Saga.
Hún sagði þetta raunveruleikann sem við byggjum við núna; að einkaskilaboð væru orðin að dómsmáli. „Þetta er sturlun,“ sagði Saga, það væri tímabært að samfélagið væri að hugsa sinn gang.