Leghálssýnin eru rannsökuð á Hvidovre-sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn.
Í tilkynningunni segir að átta vikna svartímann megi meðal annars rekja til uppsafnaðra sýna frá fyrri þjónustuaðila, aukins fjölda sýna, Covid-19 og skráningar í skimunarskrá Embættis landslæknis.
„Fyrri þjónustuaðili“ er Krabbameinsfélag Íslands en ítrekað hefur verið greint frá því að um 2.000 sýni voru órannsökuð þegar heilsugæslan tók við verkefninu.
Þess ber þó að geta að stjórnendur KÍ höfðu gert heilbrigðisráðuneytinu grein fyrir því í október að þessar aðstæður myndu skapast þegar verkefnið skipti um hendur og lagt til lausnir.
Heilbrigðisráðuneytið sagðist hins vegar ekki telja þörf á því að fresta því að KÍ hætti að taka sýni (30. nóvember) en þó var ekki gengið frá samningnum við Hvidovre fyrr en í febrúar.
Fram að þeim tíma lágu umrædd sýni óhreyfð hjá heilsugæslunni.
Í tilkynningunni sem birtist á heimasíðu heilsugæslunnar í gær segir að þegar búið verði að vinna upp töf og launsir á skráningu í skimunarskrá verði komnar til framkvæmda verði hægt að uppfylla alþjóðlega gæðastaðla.
Þeir staðlar kveði á um að yfir 80 prósent kvenna fái niðurstöðu innan fjögurra vikna frá því að sýni er tekið og allar konur fái niðurstöðu innan sex vikna.
Þessi fyrirheit eru í hróplegu ósamræmi við þau tímamörk sem Kristján Oddson, yfirmaður samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana, talaði um þegar Vísir ræddi við hann í lok janúar, þegar hyllti í samning við Hvidovre.
Þá sagði Kristján að konur fengju niðurstöðu innan tíu til fjórtán daga, að hámarki.
Hafa ber í huga í þessu samhengi að þegar leghálsskimunin fluttist frá Krabbameinsfélaginu yfir til heilsugæslunnar var jafnframt tekin upp sú breyting að HPV greining, það er að segja skimun fyrir HPV veirunni, er fyrsta rannsókn.
Meirihluti sýnanna sem fara til Kaupmannahöfns eru því aðeins HPV greind.
Landspítalinn hefur lýst því yfir að hann geti auðveldlega tekið að sér umræddar rannsóknir, ekki síst með tilkomu nýs tækis sem einnig er notað við skimun fyrir Covid-19, og að svartíminn yrði í mesta lagi þrír dagar.