„Það var gaman að sjá hraðaupphlaupin í byrjun leiks. Menn hafa greinilega eytt góðum tíma í þau í pásunni og Haukar völtuðu yfir KA-menn í byrjun þegar þeir unnu boltann,“ sagði Einar Andri í Seinni bylgjunni þar sem hann sýndi hvernig Haukar rúlluðu yfir KA í byrjun. Innslagið má sjá hér að neðan.
Þegar Haukar unnu boltann komu þeir ávallt fram völlinn með sams konar hætti. KA fékk tíma til að stilla upp í vörn en það dugði engan veginn. Adam Haukur Baumruk sótti með boltann frá vinstri að miðri vörninni, og fékk í sig Ólaf Gústafsson aðalvarnarmann KA. Út frá því höfðu Haukar svo ýmsar útgáfur til að búa til mörk.
„KA-mennirnir bregðast ekkert við. Þeir hefðu hugsanlega getað hlaupið til baka í 3-2-1 vörn til þess að mæta þessu en gera það ekki. Þá segja Haukarnir bara: „Allt í lagi, þá höldum við þessu áfram“,“ sagði Einar Andri.
„Þetta var allt á fyrstu fimm mínútum leiksins, allar útgáfur og KA-menn áttu engin svör. Þetta lagði grunninn að sigrinum. Haukar fengu fjögur einföld mörk, þurftu ekki að stilla upp í sókn, og þetta gefur mönnum fullt sjálfstraust til að klára leikinn á meðan að KA-menn eru bara slegnir,“ sagði Einar Andri.
Haukar eru með fjögurra stiga forskot á FH á toppi deildarinnar þegar sex umferðir eru eftir. Hafnarfjarðarliðin eiga eftir að mætast, 17. maí, í þriðju síðustu umferðinni. KA er í 8. sæti og myndi eins og staðan er núna mæta Haukum í úrslitakeppninni í sumar. KA er hins vegar aðeins stigi fyrir ofan Fram og tveimur stigum á eftir ÍBV sem er í 3. sæti.