Mohamed Salah kom Liverpool yfir snemma leiks og stýrði heimamenn ferðinni frá A til Ö eftir það. Mörkin létu þó á sér standa sem kom í bakið á Englandsmeisturunum þegar Joe Willock jafnaði leikinn á 96. mínútu. Callum Wilson hafði þá jafnað skömmu áður en myndbandsdómarar dæmdu markið af.
Svipað var uppi á teningunum á mánudagskvöld þegar Liverpool gerði 1-1 jafntefli við Leeds United þar sem þeir síðanefndu jöfnuðu seint í leiknum. Klopp afsakaði lið sitt ekki eftir leik.
„Á sérstakan hátt þá berjumst við ekki nóg. Þetta er ekki vegna mistaka. Við vorum 70% með boltann og hefðum átt að hafa hann 80%. Þetta eru augnablik [sem ráða úrslitum]. Við sköpum nóg af færum, nýtum þau ekki, svo við þurfum að skapa meira og nýta það.“ sagði Klopp.
Eftir jafnteflið er Liverpool í fimmta sæti deildarinnar, stigi frá Meistaradeildarsæti, en liðin í kringum þá rauðklæddu eiga leik inni. Aðspurður um Meistaradeild að ári sagði Klopp:
„Ef þú verðskuldar það, þá verðskuldar þú það. Ég sá okkur ekki eiga skilið að spila í Meistaradeildinni út frá spilamennskunni í dag. Við höfum fimm leiki. Við lærum, eða við spilum ekki í Meistaradeild.“
Líkt og Klopp segir á Liverpool fimm leiki eftir í mótinu. Næstur þeirra er leikur við Manchester United á Old Trafford næstu helgi.