Jónatan Magnússon, þjálfari KA, staðfesti við handbolta.is að félagið hefði óskað eftir því að HSÍ frestaði tveimur leikjum liðsins. Um er að ræða leiki gegn Aftureldingu 30. apríl og FH 3. maí.
Markvörðurinn Nicholas Satchwell og hornamaðurinn Allan Norðberg eru í færeyska landsliðshópnum sem mætir Rússlandi og Tékklandi í þremur leikjum í undankeppni EM 2022 um mánaðarmótin.
„Við teljum ekki getað leikið án þessara tveggja manna og reiknum með að komið verði til móts við okkar óskir. Af þessu leiðir að leikjaálagið verður meira eftir níunda maí þegar leikmennirnir tveir verða lausir úr sóttkví eftir komu hingað til lands,“ sagði Jónatan við handbolta.is.
KA vann fjögurra marka sigur á Gróttu í gær, 33-37, í fyrsta leik sínum eftir hléið sem gert var á Olís-deildinni vegna kórónuveirufaraldursins.
Með sigrinum komst KA upp í 5. sæti deildarinnar. Liðið er með sautján stig eftir fimmtán leiki. Næsti leikur KA er gegn Haukum á Ásvöllum á sunnudaginn.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.