Á þriðja tug voru mættir til mótmælanna nú á áttunda tímanum. Mótmælendur hafa sumir skilti meðferðis, þar sem á stendur Free Navalny, eða „frelsið Navalní“, og hrópa sama slagorð í átt að sendiráðinu.
Þá hafa lögreglumenn verið kallaðir til vegna mótmælanna og standa nokkrir vörð um sendiráðið nú á áttunda tímanum.

Í tilkynningu um mótmælin á sunnudag segir að Rússar á Íslandi, auk fólks frá öðrum ríkjum, komi saman til að mótmæla „pyntingum“ á Navalní.
Við dauðans dyr
Ríkisstjórn Pútíns forseta lét handtaka Navalní í janúar en hann hefur verið einn harðasti gagnrýnandi forsetans. Sökuðu yfirvöld Navalní um að hafa brotið gegn skilorði með því að hafa verið fluttur í dái til Þýskalands eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitri í ágúst. Navalní og vestræn stjórnvöld telja að stjórnvöld í Kreml hafi staðið að tilræðinu.
Navalní dvaldi í Þýskalandi í fimm mánuði en ákvað að snúa aftur heim til Rússlands. Hann var handtekinn á flugvellinum við komuna.
Navalní afplánar nú tveggja og hálfs árs fangelsisdóm í alræmdir fanganýlendu þar sem aðstæður eru sagðar ömurlegar. Dómurinn var vegna fjárdráttarmáls frá 2014 en Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að dómur sem hann hlaut í því máli hefði verið gerræðislegur og ósanngjarn.
Navalní er nú í hungurverkfalli vegna ófullnægjandi læknisaðstoðar og þjáist af miklum bak- og fótverkjum sem læknar telja ógna lífi hans. Talið er að hann sé jafnvel við dauðans dyr en hann var fluttur á sjúkradeild í nýju fangelsi á sunnudag.
Fleiri myndir af mótmælunum má sjá hér fyrir neðan.


