Þetta kemur fram í glærukynningu ríkisstjórnarinnar frá blaðamannafundi um boðaðar breyttar reglur á landamærum, sem taka eiga gildi 22. apríl.
„Öllum takmörkunum innanlands verður aflétt þegar búið er að verja stærstan hluta fullorðinna með að minnsta kosti fyrri skammti af bóluefni,“ segir í síðustu glæru kynningarinnar.

Í annarri glæru er farið yfir bólusetningaráætlun næstu vikna. Þar kemur fram að 1. júní eigi 67 prósent Íslendinga 16 ára og eldri að vera búnir að fá að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn kórónuveirunni. Mánuði síðar, þann 1. júlí, eiga allir 16 ára og eldri að vera búnir að fá fyrri skammtinn. Spáin miðast við „bestu upplýsingar“ eins og staðan er í dag.

Þetta gæti þannig þýtt að öllum veirutakmörkunum innanlands, sem nú felast meðal annars í tuttugu manna samkomubanni, tveggja metra fjarlægðarmörkum og takmörkunum á hinni ýmsu starfsemi, yrði aflétt um þetta leyti, 1. júní. Þann dag ber upp eftir sléttar sex vikur.