Frá þessum fréttum er einnig greint á Facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands og er þar fjallað um nyrsta gíginn. Vefmyndavélar sýni að ekki svo mikið sem vottur af gufu komi úr gígnum. Þá hafi heldur ekki neinn bjarmi sést í næturmyrkrinu. Hópurinn segir að hrauntjörnin sé horfin úr gígskálinni.
Umræddur nyrsti gígur opnaðist á öðrum degi páska. Að sögn hópsins var hann mjög líflegur og reis nokkuð hratt fyrstu dagana. „Var hann á endanum orðinn töluvert hærri í landslaginu en önnur gosop.“
Í síðustu viku sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur að nyrsti gígurinn sýndi merki þess að verulega hefði dregið úr virkni. Hann spáði því að þetta væri liður í aðlögun kvikunnar að landslaginu og að við myndum sjá færslu til suður því nyrsti gígurinn stæði hæst í landslaginu.