Þetta segir Evgenia Ilynskaya, dósent í eldfjallafræði við Háskólann í Leeds. Hún hefur rannsakað áhrif eldfjallagass á heilsu fólks um allan heim, og meðal annars hér heima í kjölfar eldgossins í Holuhrauni. Rannsóknin leiddi í ljós að mengunin hafði áhrif á heilsu fólks og telur hún flest benda til þess að sama verði upp á teningnum nú – ekki síst hve nálægt byggð gosið í Geldingadölum er.
„Það lítur allt út fyrir það. Við vitum að gasið sem kemur upp úr gosinu hefur áhrif bæði til skamms tíma á heilsu fólks en líka líklega til langs tíma,” segir Evgenia.
„Þetta gos er frekar lítið en það er svo nálægt byggð að mér finnst líklegt, byggt á því sem við vitum til dæmis frá Holuhrauni, að fólk með undirliggjandi sjúkdóma eins og astma og lungnateppu gæti farið að finna fyrir auknum óþægindum og þurft að leita sér oftar lækniaðstoðar, eða kaupi meira af astmalyfjum.“
Fyrst og fremst sé um öndunarfæravandamál að ræða. „Svo hefur fólk kvartað undan ógleði, höfuðverkjum og hjartasjúkdómum,“ segir hún.
Fólk með undirliggjandi vandamál sé útsettast en að gasið geti haft áhrif á alla. „Þetta á líka við um heilbrigð börn, því þau eru viðkvæmari fyrir loftmengun.“
Evgenia segir að gasmengun geti alltaf verið hættuleg og nefnir dæmi um eldfjallið Aso í Japan sem er vinsæll ferðamannastaður.
„Þar hafa orðið dauðsföll, þegar gasmengunin hefur lagst yfir útsýnispallinn. Í öllum tilfellum var það fólk sem er með astma og lét lífið nánast samstundis. Þannig að þar var tekin ákvörðun um að setja upp viðvörunarkerfi og svæðið þá rýmt þegar gasmengunin fer yfir mjög lítinn styrk sem heilbrigt fólk finnur ekki fyrir en getur sett fólk með undirliggjandi sjúkdóma í hættu. Það hafa ekki orðið fleiri sorgleg tilfelli eftir að þetta var sett upp.“