Fótbolti

Talin einn besti leikmaðurinn í Svíþjóð þrátt fyrir að hafa ekki enn spilað leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir stimplaði sig inn í íslenska landsliðið í undankeppni EM síðasta haust.
Sveindís Jane Jónsdóttir stimplaði sig inn í íslenska landsliðið í undankeppni EM síðasta haust. vísir/vilhelm

Þrátt fyrir að hafa ekki enn spilað leik í sænsku úrvalsdeildinni er Sveindís Jane Jónsdóttir á lista Fotbollskanelan yfir bestu leikmenn deildarinnar.

Keppni í sænsku úrvalsdeildinni hefst um helgina. Metfjöldi Íslendinga er í deildinni að þessu sinni. Tvær þeirra eru á lista Fotbollskanalen yfir bestu leikmenn deildarinnar.

Glódís Perla Viggósdóttir er í 20. sæti listans og Sveindís í 23. sætinu. Glódís, sem leikur með Rosengård, er þekkt stærð í Svíþjóð en hún er að hefja sitt sjöunda tímabil þar í landi. Sveindís er hins vegar á sínu fyrsta tímabili í sænsku deildinni. Hún leikur með Kristianstad í sumar á láni frá Wolfsburg.

Í umsögn Fotbollskanalen um Sveindísi segir að hún hafi vakið athygli þegar Ísland og Svíþjóð gerðu 1-1 jafntefli í undankeppni EM síðasta haust. Kopparbergs og Rosengård hafi viljað fá hana en lotið í lægra haldi fyrir Wolfsburg sem hafi svo lánað hana til Kristianstad. Í umsögninni segir að hraðinn sé helsta vopn Sveindísar.

Caroline Seger, fyrirliði Rosengård og sænska landsliðsins, er í efsta sæti lista Fotbollskanalen en fjórar af fimm efstu á honum leika með Rosengård sem endaði í 2. sæti á síðasta tímabili.

Í umsögninni um Glódísi segir að hún sé sterk í loftinu og afar mikilvæg fyrir Rosengård og íslenska landsliðið.

Leikur Eskilstuna United og Kristianstad í 1. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4 á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×