Heilbrigðisráðherra tilkynnti í dag að heimilt yrði að æfa og keppa í íþróttum, með og án snertingar, frá og með næsta fimmtudegi. Í tilkynningunni sagði að áhorfendur yrðu ekki leyfðir. Það var í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis.
Nú hafa stjórnvöld hins vegar snúið þeirri ákvörðun og ákveðið að leyfa hundrað áhorfendur á íþróttaviðburðum, í hverju sóttvarnahólfi. Það er sami fjöldi og má vera í hverju hólfi á sviðslistasýningum. Börn eru talin með í þessari tölu.
Skylt er að sæti áhorfenda séu númeruð og að skrá sé haldin yfir þá.
Íþróttabann hefur verið í gildi frá því á miðnætti miðvikudagskvöldið 24. mars. Síðan þá hefur íþróttafólk hvorki mátt keppa né æfa, nema að hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð og forðast sameiginlega snertifleti. Áður en bannið skall á hafði verið leyfi fyrir 200 áhorfendum á íþróttaviðburðum mánuðinn þar á undan.