Lindsey Thomas réttarmeinafræðingur bar vitni fyrir dómi í dag sem sérfræðingur og sagði hún að köfnun hafi verið dánarorsök Floyds. Thomas hefur starfað sem réttarmeinafræðingur í tugi ára og hefur framkvæmt meira en fimm þúsund krufningar á starfsferli sínum.
Thomas fór yfir gögnin úr krufningu Floyds og þrátt fyrir að þar sé hvergi minnst á köfnun sagði hún það vera líklegustu dánarorsök Floyds.
„Þetta er ekki skyndilegur dauði vegna hjartaáfalls. Í þessu tilfelli hættu bæði lungun og hjartað að virka,“ sagði Thomas.
„Aðgerðir lögreglumanna leiddu til dauða Floyds,“ sagði Thomas.
Myndskeið, sem fór eins og eldur um sinu á veraldarvefnum í fyrra vor, sýnir lögregluþjóninn Chauvin krjúpa á hálsi Floyds. Floyd heyrist ítrekað kalla að hann geti ekki andað á myndskeiðinu. Chauvin kraup á hálsi Floyds í meira en níu mínútur og ber hann því stöðu sakbornings í málinu.
Auk Thomas var Andrew Michael Baker, réttarmeinafræðingurinn sem framkvæmdi krufninguna á Floyd, kallaður í vitnastúku í dag. Sagði hann að aðgerðir lögreglumanna hafi valdið dauða Floyds en að undirliggjandi hjartasjúkdómar og fíkniefnanotkun hafi spilað hlutverk í dauða hans.
Thomas einblíndi þó meira á aðgerðir lögreglumanna í máli sínu og sagði hún að Floyd hafi ekki getað tekið inn súrefni vegna þess að þrír lögreglumenn hafi verið ofan á honum, hann hafi verið í handjárnum og í slæmri líkamsstöðu með hné á hálsi sínum.
„Það þýðir að aðgerðir lögreglumannanna leiddu til dauða Floyds,“ sagði Thomas.
Hún sagðist geta með vissu sagt að fíkniefnanotkun, hjartasjúkdómar og lungnasjúkdómar hafi ekki valdið dauða Floyds.