Haaland er aðeins tvítugur en þegar orðinn stórstjarna. Svo mikil stórstjarna reyndar að annar aðstoðardómarinn í leik Manchester City og Dortmund í gærkvöld bað Norðmanninn um eiginhandaráritun.
Haaland lagði upp mark Dortmund í leiknum en City vann að lokum 2-1. Liðin mætast að nýju í Þýskalandi á þriðjudaginn.
Eftir leikinn í gær vatt annar af rúmensku aðstoðardómurunum sér að Haaland í leikmannagöngunum og fékk hann til að skrifa nafnið sitt á gul og rauð spjöld sem hann dró upp úr brjóstvasanum.
Guardiola lét sér fátt um finnast
„Svona lagað á maður ekki að gera,“ sagði Owen Hargreaves, sérfræðingur BT Sport. „Dómararnir höfðu í nógu að snúast og áttu erfiðan fyrri hálfleik. Þeir klúðruðu ýmsu. Það er í lagi að vera stuðningsmaður en þú mátt ekki gera svona lagað fyrir framan hina leikmennina. Það kemur illa út,“ sagði Hargreaves.
A referee s assistant should not be asking a player for autographs after a match in the tunnel as happened with Haaland.
— Rob Harris (@RobHarris) April 6, 2021
UEFA won t want to see this surely pic.twitter.com/nA94n3k27W
Pep Guardiola, stjóri City, virtist ekki kippa sér mikið upp við það sem gerðist.
„Kannski er hann aðdáandi Haalands. Eða kannski var þetta fyrir son hans eða dóttur,“ sagði Guardiola.
„Ég hef aldrei séð svona lagað áður en dómarinn og línuverðirnir stóðu sig vel. Það er allt og sumt,“ sagði Guardiola.

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.