Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni segir í samtali við fréttastofu að einnig sé nú möguleiki á því að sprunga sé að opnast á milli gossvæðanna tveggja en björgunarsveitarmenn greindu veðurstofunni frá því í nótt að umtalsvert jarðsig hafi orðið á því svæði, allt að einn metri.
Einar segir að þetta verði skoðað með morgninum en viðbragðsaðilar munu funda um ástandið á gosstöðvunum klukkan níu. Þangað til, hið minnsta, verður svæðið áfram lokað almenningi.
Loftgæði í Vogum á Vatnsleysuströnd hafa nú batnað á ný en um tíma lagði mengun frá gosstöðvunum yfir bæinn þannig að óhollt var fyrir viðkvæma um tveggja tíma skeið.
Í dag er hinsvegar útlit fyrir vestlæga og breytilega átt og möguleiki á einhverri mengun í Ölfusi en von er á nýrri gasspá á vef Veðurstofunnar upp úr klukkan sjö.