Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarna fór í vettvangsferð að gosstöðvum í gær.
„Það voru tómar áfengisumbúðir og fleira rusl sem ég sá þarna sem mér fannst ekki alveg nógu gott. Það verður að brýna fyrir fólki að þetta er ekki útihátíðarsvæði og engin þjónusta þarna sem hreinsar upp eftir fólk,“ sagði Rögnvaldur Ólafsson.

Biður hann fólk um að hafa þetta í huga og taka rusl með sér til baka af gossvæðinu.
Þá hrósar hann fólki fyrir að hafa haldið sig í litlum hópum á svæðinu, en nokkuð hefur verið um hópamyndanir þar síðustu daga.
„Það var töluvert af fólki þarna en í hópum. Ég sá að tengdir hópar héldu sig saman og bil var á milli hópa sem sátu þarna í brekkunni.“