Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Heilbrigðisráðherra breytir þar með reglugerð um samkomutakmarkanir sem tók gildi á miðnætti.
Eftirfarandi regla gildir í verslunum við gildistöku breytingareglugerðarinnar, sem þegar hefur tekið gildi:
Þrátt fyrir ákvæði um 10 manna fjöldatakmörkun er verslunum heimilt að taka við fimm viðskiptavinum á hverja 10 m², þó að hámarki 50 viðskiptavini í rými, en 100 viðskiptavinum í lyfja- og matvöruverslunum. Þá er heimilt að hafa allt að 20 starfsmenn í sama rými og viðskiptavinir að því gefnu að uppfyllt sé það skilyrði að tryggja megi að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
Almennt er tíu manna samkomubann í gildi á landinu næstu þrjár vikur. Aðgerðirnar eru þær hörðustu sem gripið hefur verið til hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins og ná til landsins alls. Til viðbótar við hertar aðgerðir hefur hættustigi verið lýst yfir á Landspítala og neyðarstigi almannavarna hefur sömuleiðis verið lýst yfir.