Að minnsta kosti þrjú þeirra látnu eru börn, að sögn yfirvalda í þeim hluta borgarinnar Cox-basars í Bangaldess sem Balukhali-flóttamannabúðirnar tilheyra. Louise Donovan, talskona flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, segir að auk þeirra látnu hafi um 560 manns slasast í eldinum. Um 45.000 manns eiga nú ekki í önnur hús að venda vegna brunans.
Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að bruninn hafi áhrif á hátt í 88.000 manns. Margir hafi leitað skjóls í öðrum flóttamannabúðum, í tjöldum vina, í skýlum þar sem börnum er kennt eða í tímabundnum gistirýmum. Alþjóða Rauði krossinn segir að allt að 123.000 flóttamenn hafa orðið fyrir áhrifum af eldsvoðanum. AP-fréttastofan segir ekki ljóst hvað skýri svo mikinn mun á áætluðum fjöldanum.
Fleiri en milljón róhingjar hafast við í þéttsetnum flóttamannabúðum í Bangladess. Mikill meirihluti þeirra flúði ofsóknir herforingjastjórnarinnar í nágrannaríkinu Búrma árið 2017.