Örplast myndast þegar plastrusl brotnar niður. Það finnst í lofti, dýrum, vatni og jafnvel ísnum á norðurskautinu. Bráðabirgðaniðurstöður vísindamanna frá Ríkisháskólanum í Tomsk benda til þess að agnirnar berist með lofti og þeim snjó niður í tuttugu héruðum Síberíu, allt frá Altai-fjöllum til Norður-Íshafsins.
Júlía Frank, yfirmaður vísindarannsókna við örplastmiðstöð háskólans í Síberíu, segir við Reuters-fréttastofuna að ljóst sé að örplast dreifist ekki aðeins með ám og hafstraumum heldur einnig í jarðvegi, með lífverum og jafnvel loftinu.
Áður hefur örplast fundist í meltingarkerfi fiska sem veiðast í síberískum ám. Með ánum berst plastmengunin út í Norður-Íshafið. Vísindamennirnir rannsaka nú hvort að þéttleiki mannabyggða, nálægð við vegi eða aðrar athafnir manna hafi áhrif á plastmengunina sem þeir fundu í snjósýnunum.