Verulega hefur dregið úr kvikuhreyfingum á Reykjanesskaga og ef fram fer sem horfir mun hún smám saman hætta.
Skjálftahrinan við Reykjanestá hófst á fimmta tímanum í morgun og hafa hátt í fjögur hundruð skjálftar mælst síðan þá. Átta þeirra hafa verið yfir þremur að stærð og tveir 3,7 að stærð sem fundust í Grindavík og á Reykjanesinu.
„Það er mjög algengt að fá skjálftahrinur við Reykjanestána. Þetta er ekkert óalgengur hrinustaður. Þannig að við getum verið að horfa á mögulega að það hafi verið áframhaldandi gikkverkun eða hreinlega tilviljun að þarna var hrina núna, á sama tíma og þetta stóra innskot er á Reykjanesinu,“ segir Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands
Við Fagradalsfjall hafa skjálftar mælst á allt að fjögur hundruð metra dýpi í nótt en Benedikt gefur ekki mikið fyrir það.
„Það er nú ekki mikið að marka skjálfta sem eru alveg upp við yfirborðið eða á fjögur hundruð metra dýpi. Þetta kemur úr sjálfvirka kerfinu og þegar mikið er í gangi þá býr það stundum til skrýtna skjálfta. Því það koma skjálftafasar frá hinum og þessum stöðum. Sjálfvirka kerfið getur túlkað þá aðeins vitlaust þegar svona mikið er í gangi“
Enn þá er búist við eldgosi á Reykjanesskaga en þróunin hefur verið sú að smám saman hefur dregið úr kvikuvirkni.
„En virknin er að minnka og þennslan er líka að minnka. Við sjáum það bara í dag að það er mun minni þennsla en var í gær, þannig að ef áfram heldur sem horfir þá virðist þetta vera smám saman að hætta.“