Norska ríkisútvarpið, NRK, greindi frá dómnum í gærkvöldi. Áfrýjunardómstóll kvað upp úr í gær um að þrettán ára fangelsisdómur sem Gunnar hlaut í héraði skyldi mildaður í fimm ára fangelsisdóm.
Gunnar getur sótt um reynslulausn þegar hann hefur setið af sér tvo þriðju dómsins en hann er þegar búinn að afplána tæp tvö ár í gæsluvarðhaldi sem dregst þá frá refsingunni.
Ákæruvaldið íhugar nú hvort það muni áfrýja niðurstöðunni til hæstaréttar.
Gísla Þór Þórarinssyni blæddi út eftir að Gunnar Jóhann skaut hann í lærið. Gísli var á lífi þegar lögreglan kom á vettvang en tókst ekki að bjarga lífi hans.
Málflutningur hófst í lögmannsrétti Hálogalands í Tromsø 22. febrúar síðastliðinn. Dómur Héraðsdóms Austur-Finnmerkur var í samræmi við kröfur saksóknara um að Gunnar Jóhann hefði banað hálfbróður sínum að yfirlögðu ráði.
Naumur meirihluti dómara í áfrýjunarmálinu var hins vegar á öndverðum meiði og fannst ekki hafið yfir vafa að það hafi verið ásetningur Gunnars Jóhanns að skjóta Gísla Þór til bana. Fjórir dómarar voru sammála en þrír vildu staðfesta dóminn af lægra dómstigi.
Greint var frá því í desember að verjendur Gunnars Jóhanns hafi fengið til liðs við sig lögmanninn Brynjar Meling sem er vel þekktur í Noregi, en fyrst og fremst fyrir að hafa verið lögmaður Mulla Krekar, dæmds hryðjuverkamanns.