Fótbolti

Segir Juventus hafa gert mistök með kaupunum á Ronaldo

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo.

Hinn skrautlegi Antonio Cassano telur ítalska meistaraliðið Juventus hafa farið í ranga átt þegar þeir fjárfestu í portúgalska markahróknum Cristiano Ronaldo.

Ronaldo hefur raðað inn mörkum síðan hann gekk í raðir Juventus frá Real Madrid sumarið 2018 en Cassano, sem gerði garðinn frægan með Roma, Real Madrid, AC Milan, Inter og fleiri félögum á árum áður, segir Juventus þó hafa mistekist ætlunarverk sitt.

„Juventus keyptu hann til að vinna Meistaradeild Evrópu. Þeir hafa gert verri hluti þar síðan hann kom. Þeir hefðu unnið Scudetto (ítalska meistaratitilinn) án hans. Þetta voru mistök,“ segir Cassano sem gerir þó ekki lítið úr hæfileikum Ronaldo.

„Hann skorar alltaf mörk. Hann kann það betur en flestir. Hann fær boltann vinstra megin, sker inn á völlinn og neglir boltanum inn. Skallamörkin hans eru líka einstök,“ segir Cassano.

„En Pirlo vill spila ákveðna tegund af fótbolta. Hann vill pressa andstæðinginn og spila á milli línanna. Það þýðir að Ronaldo tekur ekki mikinn þátt. Ég tel þessi kaup hafa verið mistök nema þeir nái að vinna Meistaradeildina með hann innanborðs.“

Síðan Ronaldo gekk í raðir Juventus hefur hann skorað 91 mark í 118 leikjum og orðið Ítalíumeistari bæði árin. Ronaldo vann Meistaradeild Evrópu með Man Utd og Real Madrid og á enn möguleika á að leiða Juventus til sigurs í keppninni í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×