Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði tveimur minnisblöðum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um helgina. Annað minnisblaðið snýr að tillögum að afléttingum á innanlandsaðgerðum og hitt að skólastarfi þar sem núverandi reglugerð þar að lútandi fellur úr gildi 28. febrúar.
Hefur Þórólfur því lagt til að nýjar reglur um skólastarf taki gildi 1. mars. Þá hefur hann sagt að tilslakanir innanlands gætu komið til framkvæmda um miðja þessa viku en það væri þó ráðherra að ákveða.
Óvíst er hve langur fundur ríkisstjórnarinnar verður en fulltrúar fréttastofu eru á staðnum og munu ræða við Svandísi um leið og fundi lýkur.
Uppfært: Fundinum er lokið, hér að neðan má sjá viðtöl við Svandísi Svavarsdóttur og Lilju Alfreðsdóttur að honum loknum.