Þetta staðfestir Þórólfur í samtali við fréttastofu, en RÚV greindi fyrst frá.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í samtali við fréttastofu í dag að hún ætti von á talsverðum tilslökunum. Þróunin í fyrravor hefði verið á þá leið að slakað var á smám saman og hámarksfjöldi samkoma hækkaður, en hann stendur nú í tuttugu.
„Þá gætu orðið tilslakanir varðandi íþróttakappleiki, menningarastarfsemi, verslanir og svo framvegis. Við vitum um hvað þetta snýst,“ sagði Svandís.
Ísland er eina græna landið á litakóðunarkerfi Sóttvarnastofnunar Evrópu vegna kórónuveirufaraldursins, en nokkur svæði í Noregi eru einnig græn. Fá smit hafa greinst innanlands undanfarið en aðeins einn greindist í dag og var viðkomandi í sóttkví við greiningu.
Á föstudag tók gildi ný reglugerð varðandi aðgerðir á landamærunum og er farþegum nú skylt að framvísa neikvæðri niðurstöðu varðandi kórónuveirusmit úr svokölluðu PCR-prófi. Þeir sem koma án PCR-prófs geta átt von á sektum, en sektarfjárhæð hefur ekki verið ákvörðuð.
Búist er við því að tillögurnar verði kynntar á fundi ríkisstjórnarinnar næsta þriðjudag.