Fótbolti

Buðu þeim hjálp sem óttast að koma út úr skápnum

Sindri Sverrisson skrifar
Magdalena Eriksson og Pernille Harder fagna marki með Sam Kerr í leik með Chelsea sem er á toppnum í Englandi eftir komu Harder í fyrra.
Magdalena Eriksson og Pernille Harder fagna marki með Sam Kerr í leik með Chelsea sem er á toppnum í Englandi eftir komu Harder í fyrra. Getty/Catherine Ivill

Danska knattspyrnustjarnan Pernille Harder og kærasta hennar, sænska landsliðskonan Magdalena Eriksson, nýttu Valentínusardaginn í að bjóða fram stuðning til þeirra sem eiga erfitt með að opinbera kynhneigð sína.

„Ég er svo heppin að eiga fjölskyldu sem var ekkert annað en ánægð fyrir mína hönd þegar ég kom út fyrir sjö árum. Ég veit að margt fólk á erfitt með að segja vinum sínum og fjölskyldu að það sé samkynhneigt, og það hlýtur að vera versta tilfinning sem ég get ímyndað mér,“ skrifaði Harder á samfélagsmiðla.

Þær Eriksson settu svo báðar inn færslur þar sem þær buðu fylgjendum sínum að senda sér einkaskilaboð til að fá ráðleggingar eða tala um erfiðleika sína við að koma út úr skápnum. Eriksson skrifaði á Twitter í gærkvöld:

„Takk þið öll fyrir að deila ykkar sögum með okkur. Við erum hrærðar yfir viðbrögðunum og vonandi náðum við að hjálpa einhverjum. Afsakið að við skyldum ekki ná að svara öllum í kvöld en við höldum áfram á morgun. Góða nótt og gleðilegan Valentínusardag.“

Harder, sem var valin knattspyrnukona Evrópu í fyrra, gerðist liðsfélagi Eriksson hjá Chelsea í Englandi á síðasta ári, eftir að hafa leikið í fjögur ár með Söru Björk Gunnarsdóttur hjá Wolfsburg. Chelsea er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 38 stig, fimm stigum á undan Manchester City sem á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×