Hæstiréttur úrskurðaði að blaðið hafi brotið á friðhelgi einkalífs hennar við birtingu bréfsins. Meghan sagði í yfirlýsingu eftir að dómurinn féll að hún væri þakklát fyrir það að blaðið hafi verið gert ábyrgt fyrir gjörðum sínum.
„Fyrir þessa miðla er þetta leikur. Fyrir mig og marga aðra er þetta líf mitt, alvöru sambönd, og raunveruleg sorg. Skaðinn sem þeir hafa valdið og halda áfram að valda er mikill,“ sagði hún í yfirlýsingunni.
Markle kærði útgefandann Associated Newspapers Limited, sem gefur út The Mail on Sunday og MailOnline, vegna greina sem birtar voru um efni bréfs sem hún sendi föður sínum, Thomas Markle, í ágúst 2018.
Fimm greinar birtust í The Mail on Sunday og MailOnline þar sem efni bréfsins var til umfjöllunar. Markle byggði mál sitt á því að bréfið hafi verið í einkaeign og hafi blaðið ekki haft rétt á að birta efni þess.
The Mail on Sunday sagði í yfirlýsingu að niðurstaða hæstaréttar hafi komið á óvart. Blaðið sé vonsvikið yfir niðurstöðunum og hefur íhugað að áfrýja málinu.