Netanjahú hefur verið sakaður um að hafa tekið við mútum, brotið trúnað og framið fjársvik.
Netanjahú er fyrsti starfandi leiðtogi Ísraels sem hefur verið ákærður fyrir glæp. Hann mætti fyrir dóm í morgun og greindi þar frá fyrir dómara að hann stæði við þær rituðu yfirlýsingar sem lögmenn hans hafa lagt inn. Hann yfirgaf dómssal um tuttugu mínútum eftir að réttarhöld hófust án skýringa.
Netanjahú var ákærður árið 2019 eftir margra ára rannsókn vegna gjafa sem vinir hans, sem flestir eru vellauðugir, hafa gefið honum í gegn um tíðina. Vinirnir eru sagðir hafa sóst eftir því að Netanjahú innleiddi í staðin stefnumál sem þeim kæmi vel. Hann er meðal annars sakaður um að hafa beitt sér fyrir því að fjölmiðlalögum yrði breytt í stað þess að fjölmiðlar fjölluðu vel um hann.
Fréttastofa Reuters veltir því upp hvort Netanjahú hafi yfirgefið dómssal svo snemma til þess að sýna almenningi að hann muni ekki leyfa réttarhöldunum að trufla störf hans, enda er nú mánaðarlöngu útgöngubanni að ljúka.
Fjórðu þingkosningarnar á tveimur árum fara nú fram 23. mars næstkomandi í Ísrael. Kórónuveirufaraldurinn og spillingarmál Netanjahús virðast efst í huga kjósenda en fjallað hefur verið um fátt annað í kring um kosningarnar.