Guðmundur Felix Grétarsson sem gekk nýverið undir handaágræðslu í Frakklandi. Hann upplýsir fylgjendur sína á Facebook reglulega um stöðu mála eftir aðgerðina. Í dag birti hann myndband þar sem hann greinir frá því að fyrir tveimur dögum tóku læknar eftir merkjum um höfnun líkamans á nýjum handleggjum Guðmundar. Slíkt sé þó ekkert til til hafa áhyggjur af.
„Það er sérstök lyfjameðferð til að meðhöndla þetta. Fyrir tveimur dögum byrjuðum við að sjá merki um höfnun líkamans á handleggjunum. Líkaminn er að hafna handleggjunum en þetta var vitað að gæti gerst,“ sagði Guðmundur Felix.
„Rauðir blettir byrjuðu að myndast á handleggjunum og í öllum tilvikum er þetta eitthvað sem algengt er að gerist fyrstu níutíu dagana. Þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af.“
Guðmundur segir gott að einkennin hafi komið upp á meðan hann er á spítalanum, þar sé hægt að meðhöndla stöðuna.
Glaður með árangurinn
Þann 22. febrúar verður Guðmundur fluttur á annan spítala í endurhæfingu.
„Þar verð ég í óákvæðinn tíma. Ég verð heilt yfir í endurhæfingu í þrjú ár en verð líklega inniliggjandi þar í þrjá mánuði,“ sagði Guðmundur Felix.
Að öðru leyti segist Guðmundur hress. Honum gengur vel að komast á fætur á morgnanna og verður minna þreyttur en áður við gang.
„Ég er mjög glaður með árangurinn.“