Ljóst er að úrslitaleikurinn hefði hæglega getað farið í vaskinn hjá Chiefs en leikmenn liðsins voru á leið í klippingu hjá hárskera sem greindist með COVID-19. Þar á meðal var leikstjórnandinn Patrick Mahomes, tengdasonur Mosfellsbæjar.
Hárskerinn hafði farið í smitpróf fimm daga í röð en tók eitt próf í viðbót áður en hann kom inn í byggingu Chiefs-liðsins á sunnudaginn til að klippa liðið fyrir stóra daginn. Sýni úr því prófi reyndist jákvætt.
Hárskerinn hafði klippt hár Demarcus Robinson degi áður og var hálfnaður við að klippa hár Daniels Kilgore þegar í ljós kom að hann væri smitaður. Kilgore grínaðist sjálfur með atvikið á samfélagsmiðlum en samkvæmt Adam Schefter hjá ESPN bað hann hárskerann um að klára klippinguna, sem hann og gerði.
#NewProfilePic pic.twitter.com/LWpMbv0oTQ
— Daniel Kilgore (@DanielKilgore67) February 3, 2021
Leikmennirnir tveir voru sendir í sóttkví en þeir voru líkt og hárskerinn með grímu í klippingunni. Samkvæmt Schefter hafa leikmennirnir báðir greinst með neikvætt sýni og ættu að geta komið til móts við Chiefs-liðið á laugardaginn og flogið með því í leikinn á sunnudaginn.

NFL er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NFL er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði. Beinar útsendingar frá öllum leikjum eru á NFL Game Pass sem hægt er að kaupa sem viðbót við Sportpakkann á 2.000 krónur á mánuði.