Handbolti

Einar Andri ósammála Arnari Daða

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnar Daði Arnarsson til vinstri og Einar Andri Einarsson til hægri.
Arnar Daði Arnarsson til vinstri og Einar Andri Einarsson til hægri. vísir/skjáskot

Einar Andri Einarsson, þjálfari og nú spekingur Seinni bylgjunnar, var ekki sammála þjálfara Gróttu með tvo hluti sem hann lét hafa eftir sér í viðtali eftir sigur Gróttu á ÍR í vikunni.

Grótta vann mikilvægan sigur á ÍR í slag á Seltjarnarnesi en Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, þakkaði kollega sínum hjá ÍR, Kristni Björgúlfssyni, fyrir að spila 6-0 vörn en ekki 5-1 vörnina sem hann bjóst við.

Viðtalið við Arnar Daða var spilað í Seinni bylgjunni sem og rætt um ummæli hans en í settinu voru ásamt þáttarstjórnandanum Henry Birgi þeir Jóhann Gunnar Einarsson og Einar Andri.

„Arnar var hátt uppi í þessu viðtali enda að vinna sinn fyrsta sigur í deildinni. Óskum honum til hamingju með það en held að það sé enginn ástæða til að vera hnýta í Kidda með þetta,“ sagði Einar Andri.

„Það er nóg að við hérna, hinir svokölluðu sérfræðingar eins og einhver segir, gagnrýnum þjálfarana. Svo að við, við segi ég, þjálfararnir förum ekki að gagnrýna hvorn annan.“

Arnar Daði sagði einnig í viðtalinu að honum hafi fundist ÍR vera með forskot enda spiluðu þeir ekki um helgina en Grótta spilaði gegn FH. Einar Andri sagði það hafi hjálpað Gróttu ef eitthvað var.

„Annað sem ég er ekki sammála Arnari; ég held að Grótta hafi haft forskot á ÍR með að vera búnir að spila leik. Ég held að það hafi hjálpað þeim frekar en hitt. Fyrsti leikur eftir svo langa pásu er erfiður. Að ná í þennan sigur er gott. Þeir hlupu af sér hornin gegn FH og voru komnir í aðeins meiri leikform en ÍR-ingarnir.“

Klippa: Seinni bylgjan - Umræða um Gróttu

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×