Tammy Abraham skoraði tvö mörk á sex mínútna kafla í byrjun fyrri hálfleiks, á 11. og 17. mínútu og stefndi allt í þægilegan sigur Chelsea. Það varð þó ekki raunin, eftir slaka byrjun réttu Luton-menn úr kútnum og náðu að minnka muninn á 30. mínútu.
Jordan Clark átti þá skot frá hægri í teignum, tiltölulega beint á Kepa í marki Chelsea en boltinn lak framhjá spænska markverðinum og í netið.
Þetta gaf Luton von og áttu þeir nokkur færi áður en flautað var til lok fyrri hálfleiks.
Luton fékk dauðafæri á 63. mínútu þegar James Collins skallaði boltann framhjá markinu. Á 74. mínútu náði Tammy Abraham síðan að fullkomna þrennu sína í leiknum og í leiðinni svo gott sem tryggja Chelsea áfram.
Timo Werner fékk það hlutverk að taka vítaspyrnu fyrir Chelsea á 86. mínútu en hann lét verja hana frá sér. Það hefur lítið sem ekkert gengið upp hjá Þjóðverjanum undanfarið.
Chelsea mætir aftur B-deildarliði í 16-liða úrslitum, en liðið fer í heimsókn til Barnsley á dögunum 10.-11. febrúar.