Í tilkynningu frá spítalanum, sem send var á fjölmiðla um klukkan 11:30, segir að enn sem komið sé hafi allar niðurstöður starfsfólks reynst neikvæðar eða liðlega hundrað talsins.
Áður höfðu komið neikvæðar niðurstöður úr skimun 32 inniliggjandi sjúklinga.
Greint var frá því í gær að sjúklingur á hjartadeild, deild 14 EG við Hringbraut, hefði greinst með Covid-19. Í gærkvöldi var dagvaktin á hjartadeildinni skimuð ásamt inniliggjandi sjúklingum. Reyndust allar niðurstöður neikvæðar.
Eftir að smitið kom upp var lokað fyrir innlagnir, en ekki liggur fyrir hvernig viðkomandi smitaðist. Þá var öllum valkvæðum aðgerðum og göngudeildarheimsóknum frestað.