Fótbolti

Komst ekki til Ítalíu því einkaþotan er föst í Madríd

Anton Ingi Leifsson skrifar
Reikna má með að viðbrögð Ronaldo hafi verið einhvernveginn á þennan hátt í gær.
Reikna má með að viðbrögð Ronaldo hafi verið einhvernveginn á þennan hátt í gær. vísir/getty

Cristiano Ronaldo ætlaði að ferðast aftur til Ítalíu í gær en það gekk ekki upp því einkaþotan hans var föst í Madríd vegna kórónuveirunnar.

Juventus kallaði alla sína leikmenn aftur til baka til Ítalíu þar sem stjórnvöld á Ítalíu hafa gefið leyfi á að liðin byrji aftur að æfa frá síðar í mánuðinum.

Portúgalska sjónvarpsstöðin TVI greinir frá því að Ronaldo hafi ætlað að ferðast til Ítalíu í gær en það hafi ekki gengið eftir því 30 milljóna punda einkaþota hans hafi ekki getað yfirgefið Madríd.

Flugvélin á að hafa reynt í þrígang að taka á brott í gær en vegna kórónuveirunnar liggur allt flug á Spáni niðri svo flugvélin fékk ekki að taka á loft og ferðast til Madeira í Portúgal að ná í Ronaldo.

Hann hefur haldið til í heimahögunum frá því að veiran fór að breiðast út á Ítalíu en hann gerði sér lítið fyrir og keypti eins og einn glæsilegan Mercedes fyrir mömmu sína á mæðradeginum í gær.

Eins og áður hefur verið nefnt er einkaþota Ronaldo metinn á um 30 milljónir punda en hún er fyrir áhugasama af gerðinni G650 Gulfstream og getur tekið átján manns í sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×