Innlent

Dagurinn í dag sá besti í höfuð­borginni í bili

Sylvía Hall skrifar
Blíðskaparveður var í höfuðborginni í dag.
Blíðskaparveður var í höfuðborginni í dag. Vísir/Vilhelm

Blíðskaparveður var í höfuðborginni í dag og má búast við þokkalegu veðri á morgun. Dagurinn í dag var þó sá besti í bili en á morgun verður skýjaðara, gola og úrkomulaust að kalla.

Þá verður kalt næstu daga og frost gæti farið niður í sex stig um nætur. Á laugardag bætir í vind og verður allt að fimmtán metrar á sekúndu en úrkomulaust á höfuðborgarsvæðinu.

Þó er spáð er norðaustan hvassviðri eða stormi um helgina með snjókomu og hríðarveðri í flestum landshlutum. Þetta kemur fram í athugasemdum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Þar segir jafnframt að ferðalög gætu verið varasöm og eru því ferðamenn hvattir til að kanna vel veðurspár og færð áður en lagt er af stað. Þetta er því ekki ákjósanleg ferðahelgi en á laugardag bætir heldur í vind og má búast við hvassviðri eða stormi syðst á landinu, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal.

Veðrið versnar á sunnudag en þá má búast við roki eða stormi víða um land með talsverðri snjókomu og skafrenningi. Þetta leiðindaveður stendur fram á mánudag en þá hlýnar þó örlítið í veðri.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Gengur í norðaustan 13-23 m/s með snjókomu eða skafrenningi, hvassast og úrkomumest SA-til, en él á V-landi. Frost 0 til 10 stig, minnst við S-ströndina

Á sunnudag:

Norðaustanstormur eða -rok og snjókoma eða skafrenningur, en rigning eða slydda SA til um kvöldið. Hægt hlýnandi veður.

Á mánudag:

Norðaustanstormur með hríðarveðri á Vestfjörðum, annars allhvöss suðvestanátt og rigning eða slydda með köflum, en éljagangur um kvöldið. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst.

Á þriðjudag:

Austlæg átt, snjókoma eða slydda með köflum og hlýnar heldur í bili.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir breytilega átt með éljum víða um land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×