Körfubolti

Isiah Thomas vann Jordan oftar en hann tapaði fyrir honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
MIchael Jordan vann NBA titilinn í fyrsta sinn 1991 eftir að hafa áður stöðvað tveggja ára sigurgöngu Isiah Thomas og félaga í Dertiot Pistons.
MIchael Jordan vann NBA titilinn í fyrsta sinn 1991 eftir að hafa áður stöðvað tveggja ára sigurgöngu Isiah Thomas og félaga í Dertiot Pistons. Samsett/Getty

Mikið hefur verið rætt um óvinina Michael Jordan og Isiah Thomas eftir þriðju og fjórðu þættina í heimildarþáttaröðinni the „The Last Dance“ en þeir voru frumsýndir síðasta sunnudag.

Einvígi Detroit Pistons og Chicago Bulls á níunda áratugnum voru til umræðu í „The Last Dance“ en Isiah Thomas og félagar í Detroit Pistons enduðu þrjú tímabil í röð hjá Michael Jordan frá 1988 til 1990.

Michael Jordan hafði síðan loksins betur vorið 1991 og varð í framhaldinu NBA meistari í fyrsta sinn.

Framkoma Isiah Thomas og hinna stjörnuleikmanna Detroit Pistons þótti ekki mjög merkileg en þeir stungu af úr salnum áður en lokaleikurinn kláraðist.

Michael Jordan kom í veg fyrir að Isiah Thomas væri valinn í draumalið NBA á ÓL í Barcelona 1992 og eins og kom fram í síðasta þætti af „The Last Dance“ þá er hann ekki búinn að fyrirgefa Thomas næstum því þremur áratugum síðar.

Isiah Thomas varð að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla þegar hann var 32 ára en þá átti Jordan eftir að vinna þrjá af sex titlum sínum.

Það er samt athyglisvert að skoða þá leiki þar sem þeir Mihcael Jordan og Isiah Thomas mættust á körfuboltavellinum í NBA deildinni.

Isiah Thomas vann nefnilega Jordan oftar en hann tapaði fyrir honum, bæði í 43 deildarleikjum sem og í 22 leikjum þeirra í úrslitakeppni.

Isiah Thomas fagnaði 24 sinnum sigri í 43 deildarleikjum og vann 12 af 22 leikjum í úrslitakeppninni. Við erum því að tala um að Isiah Thomas hafði betur á móti Jordan í 55 prósent leikja þeirra eða í 36 af 65 leikjum.

Þegar kom að úrslitakeppninni 1991 var Isiah Thomas búinn að fagna sigri í 12 af 18 leikjum þeirra en Chicago Bulls sópaði Detroit út úr úrslitakeppninni 1991 og liðin mættust ekki aftur með þessa kappa innanborðs.

Í deildarleikjum þeirra var Michael Jordan með 31,6 stig og 5,5 stoðsendingar í leik í deildarleikjum þeirra en Isiah Thomas skoraði 21,0 stig og gaf 9,3 stoðsendingar í leik á móti Jordan.

Í úrslitakeppninni var Isiah Thomas með 18,9 stig og 8,3 stoðsendingar í leik en Jordan bauð upp á 30,0 stig og 6,1 stoðsendingu í leik í leikjum sínum á móti Thomas og félögum.

Það má finna alla tölfræðina úr innbyrðis leikjum þeirra tveggja með því að smella hér.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×